Skip to main content

Félag eldri borgara á Fljótsdalshéraði

  • Stjórn

           
     Guðrún  Benediktsdóttir   formaður 895 3866  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
     Guðlaug Ólafsdóttir  ritari 895 1488  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
     Björn Ármann Óafsson  gjaldkeri 846 6461  
     Skúli Hannesson  meðstjórnandi 852 1261  
     Indriði Þóroddsson  meðstjórnandi 854 1564  
           
     Sigríður Ingimarsdóttir  varamaður 861 0480  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
     Ingifinna Jónsdóttir   varamaður 893 1043  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
  • Lög

    26.mars. 2017

    Lög Félags eldri borgara á Fljótsdalshéraði.

    1. kafli: Heiti, heimili og hlutverk.


    1. gr.


    Félagið heitir Félag eldri borgara a Fljótsdalshéraði. Félagssvæði þess er Fljótsdalshérað. Heimili og varnarþing er á Egilsstöðum.


    2. gr.


    Hlutverk þess og markmið er að sinna hagsmunum eldri borgara, svo sem:


    a) kynningu á félagslegum réttindum og skyldum þeirra, og bættum hag að öðru leyti
    b) úrbótum í húsnæðis- atvinnu- félags-og fjármálum
    c) umgangast mál eldri borgara er snúa að opinberum aðilum og vera umsagnaraðili mála sem þá varða sérstaklega.
    d)annast dægradvöl og tómstundastarf.

    2. kafli: Félagar.

    3. gr.


    Rétt til að ganga í félagið eiga allir sem náð hafa eftirlauna- eða 60 ára aldri.
    Styrktaraðilar geta verið einstaklingar og fyrirtæki. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum en ekki kosningarétt né kjörgengi.

    3. kafli: Aðalfundur.


    4. gr.


    Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda ár hvert fyrir 1. apríl. Boða skal til hans á óyggjandi hátt með minnst viku fyrirvara. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála. Lögum félagsins verður aðeins breytt með auknum meirihluta, ⅔ atkvæða. Tillögur um breytingar á lögum félagsins skal kynna með fundarboði aðalfundar. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.


    Dagskrá aðalfundar:
    1. Fundur settur og lögmæti hans kannað.
    2. Skýrsla stjórna um síðasta ár og umræður um hana.
    3. Endurskoðaður reikningur lagður fram og afgreiddur.
    4. Lagabreytingar, hafi komið fram tillögur þar um.
    5. Kosning stjórnar- og varamanna.
    6. Kosning skoðunarmanna reikninga ásamt varamönnum.
    7. Árgjald félagsmanna ákveðið.
    8. Önnur mál.
    9. Fundi slitið.

    4. kafli: Stjórn.


    5. gr.


    Stjórn félagsins skipa fimm menn. Þeir eru kjörnir á aðalfundi, til skiftis 2 eða 3 eftir því sem við á hverju sinni. Einnig skulu tveir varamenn kjörnir árlega á sama fundi.
    Stjórn skiptir sjálf með sér verkum formann, varaformanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda.


    6. gr.


    Stjórn félagsins ræður málum þess milli aðalfunda. Hún ber ábyrgð á fjárreiðum þess og skuldbindur það gagnvart öðrum aðilum og nægir til þess undirritun formanns og tveggja annarra stjórnarmanna. Bera skal þó stærri mál undir félagsfund.
    Stjórn velur fólk til starfa í nefndum sem vinna eiga að framkvæmd markmiða félagsins, sbr. 2. grein, og tilnefnir formenn þeirra.
    Stjórnarfundi skal formaður boða tryggilega, aðalmenn og varamenn. Varamenn hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.
    Stjórn heldur gerðabók og skulu fundargerðir staðfestar og undirritaðar við lok funda.


    5. kafli. Félagsslit.


    7. gr.


    Nú kemur fram tillaga þess efnis að félaginu skuli slitið og sætir hún þá sömu meðferð og tillaga um lagabreytingu, sbr. 6. gr.
    Við félagsslit ákveður félagsfundur að eigur félagsins renni til almennra hagsmunamála eldri borgara og þá hverra.

    Þannig samþykkt á aðalfundi 26.mars. 2017

     

  • Hlutverk

    • Hlutverk félagsins er að sinna hagsmunum eldri borgara.
    • Félagsskírteinið gefur okkur afslátt af vöru og þjónustu þar sem það á við.
    • Við leiðum félagslíf eldri borgara og reynum að vera með fjölbreytta afþreyingu.
    • Félagsstarfið tekur breytingum eftir því sem okkur fjölgar og tímarnir breytast.
    • Það sem ber hæst núna er hreyfing og þrekæfingar í íþróttahúsinu.
    • Farið er í tvær ferðir á ári og er félagið með ferðanefnd sem sér um þá viðburði.
    • Við erum í Landsambandi eldri borgara (LEB) og njótum þeirra réttinda sem það semur um fyrir okkur. Hluti af félagsgjaldinu fer til LEB til að standa straum af starfinu sem er mjög mikið og gott.
    • Þitt félagsgjald hjálpar til að sinna hagsmunum eldri borgara.
  • Saga

    Tekið saman af Guðlaugu Ólafsdóttur.

    Félag eldri borgara á Fljótsdalshéraði var stofnað 8. janúar 1984 í húsi Slysavarnafélagsins á Egilsstöðum (Kökuhúsinu) og voru stofnfélagar 40.

    Forsaga málsins var sú að í  erindisbréfi Tómstundaráðs Egilsstaða var tekið fram að ráðið  skyldi stuðla að og styrkja tómstundir allra aldurshópa sveitarfélagsins. Á þessum tíma var nýstofnað félag eldri borgara á Akureyri og fékk ráðið lög þess og reglur til undirbúnings. Veturinn 1983 hélt Tómstundaráð í samstarfi við Lionsklúbbinn Múla samkomur fyrir eldri borgara sveitarfélagsins, í Gistihúsinu á Egilsstöðum einu sinni í mánuði, þar sem ýmislegt var til gamans gert og sáu ráðsmeðlimir um allan undirbúning, bakstur og skemmtiatriði, en Lionsklúbburinn sá um akstur.  Þetta mæltist svo vel fyrir að skipaður var undirbúningshópur fyrir stofnun félags eldri borgara á Héraði. Í hópnum voru Björn Sveinsson, Björgvin Hrólfsson, Einar Pétursson, Lára Kjerúlf og Kristrún Jónsdóttir frá Tómstundaráði.

    Eftir félagsstofnunina voru haldin opin hús í Kökuhúsinu mánaðarlega, sem félagar skiptust á að undirbúa.  Þá var oftast spiluð félagsvist. Samt háði aðstöðuleysi félaginu fyrstu árin.

    Þegar Miðvangur 22, sem var hús með litlum íbúðum fyrir 60 ára og eldri, var byggður, fékk félagið húsnæði þar í kjallaranum og festust þá ýmsir liðir í sessi, svo sem handavinna ýmiskonar, spilamennska og dans. Fljótlega var ráðinn leiðbeinandi í hálft starf, en með árunum jókst þátttaka mjög mikið í handverkinu og voru þá ráðnir fleiri leiðbeinendur  og kennarar. Sveitarfélagið greiddi leiðbeinendum laun. Í Miðvangi var starfsemi alla daga eftir hádegi og jafnvel alla daga vikunnar, þar sem félagið hafði eitt yfir húsnæðinu að ráða. Bridge og félagsvist áttu ákveðna daga vikunnar, margskonar handverk og fleiri listgreinar voru stundaðar hina dagana. Þá var líka mikið sungið og dansað á þessum árum. Einnig stóð félagið fyrir ýmiskonar fræðslu og námskeiðum fyrir félagsmenn. Lögð var áhersla á hreyfingu og síðan þá hefur eldra fólk sótt leikfmi og sundleikfimi undir leiðsögn í íþróttahúsinu. Í  mörg ár hittust félagsmenn fyrir utan Miðvang kl. 10 á morgnana og gengu saman og var það hvatning til eldra fólks að vera með. Kór var um tíma starfandi með söngstjóra, en í dag er sönghópur með undirleikara, þar sem allir geta mætt og sungið hver með sínu nefi.

    2. nóvember 2008 var vígsluhátíð hússins Miðvangur 6, sem er 4 hæða hús með íbúðum fyrir 60 ára og eldri. Fljótsdalshérað hafði keypt ¾ af neðstu hæðinni fyrir dagvist aldraðra og starfsemi eldri borgara. Félaginu var gefinn kostur á að velja húsnæðinu nafn og hlaut það nafnið Hlymsdalir. Fljótsdalshérað afhenti félaginu þessa aðstöðu til starfseminnar. Fljótlega kom þó í ljós að aðstaðan fullnægði ekki félaginu alveg. Þá kom Fljótsdalshreppur til sögunnar og keypti þann hluta neðstu hæðarinnar, sem var óseldur og afhenti félaginu hann til ráðstöfunar undir félagsstarfið. Fljótsdalshérað tók að sér að sjá um rekstrarkostnað.  Starfið fluttist þarna strax í Hlymsdali og þar er húsið opið til allskonar starfsemi og er aðstaðan góð fyrir eldri borgara, öryrkja og aðra sem vilja nýta sér hana.

    Fyrir nokkrum árum var opnuð smíðastofa fyrir eldri borgara að Lyngási 12, en er núna komin út í Vonarland, þar sem aðstaða er til ýmissa smíða. Smíðastofan  er tækjum búin, sem góðir menn hafa ýmist gefið eða lánað, en oft er þörf fyrir fleiri tól. Þar hittast menn og smíða, gera við hluti eða bara hittast og skiptast á skoðunum.

    Púttvöllur hefur líka verið tekinn í notkun á bak við gamla pósthúsið og þar er hægt að spila og njóta á góðum dögum yfir sumarið. Félagar byggðu geymsluhús fyrir sláttuvél og fleira tengt púttinu.

    Síðast en ekki síst hafa félagarnir verið mjög virkir í ferðalögum í gegnum árin. Ferðanefnd hefur verið starfandi seinni árin, sem hefur skipulagt 2 ferðir á ári. Aðra, dagsferð á ýmsa staði í nágrenninu, en hina 4-5 daga ferð um Ísland, en tvisvar hefur verið farið erlendis. Þátttaka hefur alltaf verið mjög góð og ferðirnar gefið félögunum mikið. Áður en farið var að skipa sérstaka ferðanefnd sá stjórnin um skipulagningu ferða.

    Nú árið 2020 eru gildir félagar 230. Að auki eru félagar 90 ára og eldri gjaldfríir. Félagið á líka marga góða styrktarfélaga.

    Nú eru starfandi félög eldri borgara á flest öllum þéttbýlisstöðum á landinu, þrátt fyrir að einungis fá væru komin til er þetta félag  var stofnað. Með hækkandi aldri hefur eldra fólki fjölgað mikið og allar rannsóknir sýna að virkni  og þátttaka  í lífinu sem lengst, eflir heilsu og líðan fólks, því er félagið ákveðin heilsulind.